Málþing um kynjafræði

IMG_2636Vorið 2013 var í fyrsta sinn kennd kynjafræði við MB. Hluti af þeim áfanga var að fara í vettvangsferð til Reykjavíkur að hitta ýmsa sérfræðinga í málefnum kynjanna. Í spjallhópi kynjafræðikennara kom í kjölfarið upp sú hugmynd að halda málþing kynjafræðinema og stefnt var að því að gera það vorið 2014. Vegna verkfalls framhaldsskólakennara var því málþingi frestað til haustsins. Nú í vikunni fór svo fram í Menntaskólanum í Kópavogi annað málþing kynjafræðinema í framhaldsskólum.  Auk nemenda MK tóku nemendur frá Menntaskólanum við Hamrahlíð, Borgarholtsskóla, Menntaskóla Borgarfjarðar, Flensborg og Kvennaskólanum í Reykjavík þátt í málþinginu.

Málþingið tókst afar vel og unnið var í 11 málstofum þar sem málefni og staða kynjanna voru rædd frá ýmsum sjónarhornum. Vonir standa til að hægt verði að halda slík málþing árlega.

Á myndinni má sjá nokkra nemendur MB á málþinginu. Kennari þeirra í kynjafræðinni er Ívar Örn Reynisson.

Boðað til aðalfundar 22. apríl

salurBoðað er til aðalfundar Menntaskóla Borgarfjarðar ehf. miðvikudaginn 22. apríl næstkomandi. Fundurinn verður haldinn í Menntaskóla Borgarfjarðar, Borgarbraut 54 og hefst kl. 12:00. Fundarefni er venjuleg aðalfundarstörf.

Blómstrandi félagslíf

IMG_0164Nýverið tóku fimm strákar úr MB þátt í söngvakeppni framhaldsskólanna og stóðu sig afar vel þótt ekki næðu þeir verðlaunasæti. Stefnir Ægir Berg Stefánsson söng við undirleik Styrmis Inga Stefánssonar, Kára Jóns Sigurðarsonar, Sigurðar Eggerts Sigurðssonar og Einars Gilberts Einarssonar.

Nú stendur yfir vinna við skólablaðið  Eglu sem gert er ráð fyrir að komi út í lok mánaðarins. Þetta verður í fjórða sinn sem skólablað MB kemur út. Ritstjóri þessa blaðs er Óli Valur Pétursson en fjölmargir aðrir nemendur koma að blaðinu.

Hápunkturinn í félagslífi skólans, eða árshátíðin, verður svo haldin fimmtudaginn 16. apríl. Að vanda stendur mikið til og þema árshátíðarinnar í ár er 007. Veislustjórar verða tveir fyrrverandi nemendur skólans, þeir Jóhannes Magnússon og Pétur Már Jónsson.