Sýning um íslenskt atvinnulíf í MB

IMG_2249Sýning um íslenskt atvinnulíf var sett upp í Menntaskóla Borgarfjarðar þann 17. október. Sýningin var opnuð á Bifröst í júní síðastliðnum og hefur svo að undanförnu verið sett upp m.a. í grunnskólum í héraði þar sem nemendur hafa unnið verkefni í tengslum við hana. Sýningin fjallar um íslensk fyrirtæki og veitir innsýn í verðmætasköpun þeirra og hugmyndir starfsmanna um framtíð fyrirtækjanna. Á sýningunni má kynna sér upplýsingar um fjölmörg  fyrirtæki á öllum sviðum atvinnulífsins.

Á myndinni má sjá nemendur í áfanganum frumkvöðlafræði í MB koma sýningunni fyrir á göngum skólans.

Heilsueflandi framhaldsskóli – MB hlýtur brons fyrir geðrækt

15367_31_previewVerkefnið Heilsueflandi framhaldsskóli byggist á þeirri stefnu að nálgast forvarnir út frá víðtæku  sjónarhorni í því skyni að auka vellíðan og bæta árangur nemenda, kennara og annars starfsfólks skólanna. Verkefnið er unnið í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið, velferðarráðuneytið og Samband íslenskra framhaldsskólanema (SÍF), undir formerkjum HoFF samstarfsins (heilsuefling og forvarnir í framhaldsskólum).

Höfuðáhersla verkefnisins er á fjögur viðfangsefni, þ.e. næringu, hreyfingu, geðrækt og lífsstíl og er eitt viðfangsefni tekið fyrir á hverju skólaári. Þegar skóli hefur uppfyllt ákveðin atriði á gátlista Heilsueflandi framhaldsskóla öðlast hann bronsviðurkenningu, en silfur og gull hlotnast þeim skólum sem uppfylla fleiri atriði gátlistanna og strangari kröfur. Gert er ráð fyrir að viðfangsefnin fjögur taki svo við hvert af öðru í framtíðinni og verkefninu lýkur ekki fyrr en skóli annaðhvort ákveður að hætta þátttöku eða uppfyllir ekki kröfur um Heilsueflandi framhaldsskóla.

MB hefur tekið þátt í verkefninu frá upphafi þess.  Á skólaárinu sem nú stendur yfir er sjónum beint að lífsstíl.

Nánari upplýsingar um verkefnið má finna hér.