Samstarf við sænskan menntaskóla heldur áfram

Skólameistari og tveir kennarar frá Nils Fredriksson menntaskólanum, NFU,  í Svedala í Svíþjóð hafa verið í heimsókn í MB undanfarna daga með  áframhaldandi samstarf skólanna í huga. Hópur  nemenda úr NFU heimsótti MB í apríl á liðnu ári en verkfall framhaldsskólakennara setti þá að vísu nokkurt strik í reikninginn varðandi móttökur af hálfu MB. Nú hefur verið ákveðið að halda samstarfi skólanna áfram og von er á öðrum hópi sænskra nemenda í mars næstkomandi. Einkum verður lögð áhersla á jarðfræði í Íslandsheimsókninni en kennarar beggja skóla vinna nú að hugmyndum um samstarf á sviði fleiri námsgreina.

MB og NFU eiga það meðal annars sameiginlegt að vera fámennir skólar, með um og innan við 200 nemendur í dagskóla. Í báðum skólum er lögð áhersla á nemendamiðaða kennslu og persónulega þjónustu við hvern og einn.

Sænsku kennararnir notuðu tímann vel og kynntu sér náttúru og menningu í héraði. Á myndinni eru þeir staddir á Borg á Mýrum.

Þriggja ára nám til stúdentsprófs er mögulegt

Í pistli sem ber yfirskriftina “Þriggja ára nám til stúdentsprófs er mögulegt” fjallar Ívar Örn Reynisson, félagsfræðakennari, um reynslu nemenda og kennara Menntaskóla Borgarfjarðar af slíku fyrirkomulagi. Ívar Örn hefur starfað við MB frá því skólinn hóf starfsemi árið 2007 og hefur því umtalsverða reynslu af kennslu á þriggja ára námsbrautum. Pistilinn, sem birtist á vef Kennarasambands Íslands, má lesa hér.

Jöfnunarstyrkur – umsóknarfrestur er til 15. febrúar

Nemendur sem sækja nám fjarri lögheimili og fjölskyldu eiga rétt á jöfnunarstyrk til náms. Hægt er að sækja um í gegnum heimabanka eða á Innu. Reglur um styrki og frekari leiðbeiningar er að finna á vefsvæði Lánasjóðs íslenskra námsmanna – www.lin.is . Umsóknarfrestur vegna vorannar 2015 rennur út 15. febrúar næstkomandi.